Stök frétt

Jólalög spiluð og sungin um allan bæ

Nemendur tónlistarskólans spila og syngja um þessar mundir jólalögin sín um allan bæ. Búið er að halda fimm jólatónleika í sal skólans, spila á basar kvenfélagsins og þegar tendrað var á jólatrénu. Við tókum þátt í kirkjuheimsókn yngri barna á þriðjudaginn var og Litla Lúðró heimsótti leikskólann í morgun. Búið er að birta fullt af myndum frá þessum viðburðum hér á síðunni.

 

Um helgina tökum við þátt í aðventustund Helgafellskirkju, heimsækjum sjúkrahúsið og dvalarheimili aldraðra á þriðjudaginn og spilum fyrir Aftanskin á miðvikudaginn. Þá er eftir hápunkturinn, sem er HÁTÍÐARTÓNLEIKARNIR í kirkjunni fimmtudaginn 14. desember kl. 18:00. Þangað eru að sjálfsögðu allir hvattir til að koma, enda verður flutt jólatónlist af ýmsu tagi, bæði fjörug og hátíðleg. Fram koma nemendur úr öllum deildum skólans, einleikur, einsöngur og samspil og söngur í alls konar hópum, stórum og smáum. - Allir hjartanlega velkomnir og enginn aðgangseyrir.