Stök frétt

Kæru nemendur og foreldrar / forráðamenn og velunnarar Tónlistarskóla Stykkishólms.

Kæru nemendur og foreldrar / forráðamenn og velunnarar Tónlistarskóla Stykkishólms.

 

Nú er að ljúka vetri í skólanum okkar. Vetri sem fer í sögubækur vegna heimsfaraldurs sem sannarlega setti mark sitt á okkar starf rétt eins og líf fólks um allan heim. Í dag áttu að vera skólaslit tónlistarskólans en ekki getur orðið af þeim með venjubundnum hætti.

 

Við enduðum skólastarfið hér með fernum tónleikum sem voru foreldralausar samkomur. Á þeim tónleikum fengu þeir sem kláruðu tónfræðiáfanga og stigspróf á hljóðfærin sín prófskírteini og umsagnarblað. Aðrir nemendur fengu umsagnarblöð sín afhent. Þeir sem ekki spiluðu fá umsagnarblöðin afhent annað hvort í pósti eða eftir öðrum leiðum.

 

Skólastarfið var með hefðbundnum hætti framan af vetri. Nemendur voru duglegir að koma fram við hin ýmsu tækifæri og starfið í ágætum blóma.

Jóhanna Guðmundsdóttir þurfti þó að fara í veikindaleyfi í nóvember s.l. og við hennar starfi tóku tveir af kennurum skólans, þeir Martin Markvoll og Hólmgeir S Þórsteinsson. Sannarlega varð skólastarfið með breyttu sniði vegna veirunnar og gerði það nýjar kröfur til okkar allra.

 

Listinn af viðburðum sem við náðum að taka þátt í með nemendum okkar varð þó býsna langur en listinn af viðburðum sem við þurftum að fella niður varð ennþá lengri. Þannig var nú þessi óvenjulegi vetur. Starfið hjá okkur er þó komið í nokkuð eðlilegt horf og við hlökkum til næsta vetrar.

 

Föstudaginn 22. maí munu þrír nemendur skólans taka Grunnpróf á sín hljóðfæri. Það var mikil óvissa um hvort það næðist og því ánægjulegt að af verður.

 

Við minnum á að nú er hægt að sækja um skólavist fyrir næsta vetur sem verður vonandi hefðbundnari en þessi. Kennarahópurinn verður óbreyttur.

 

Martin, Kristín og Nína Elsa, innilegar hamingjuóskir með litlu stúlkuna.

 

Við óskum ykkur öllum gleðilegs sumars með þökkum fyrir góða vinnu vetrarins.

 

Tónlistarskóla Stykkishólms er slitið skólaárið 2019 til 2020.