Lúðrasveitir Stykkishólms

Lúðrasveit Stykkishólms

Lúðrasveit Stykkishólms var stofnuð á sumardaginn fyrsta árið 1944. Fyrsti stjórnandi hennar var Víkingur Jóhannsson. Víkingur gerði meira en að stjórna lúðrasveitinni, hann kenndi flestum hljóðfærin líka, því í upphafi kunnu fáir að spila. 

Þegar lúðrasveitin var búin að starfa í 20 ár stóðu félagar hennar að því að stofnaður var í bænum tónlistarskóli, Tónlistarskóli Stykkishólms. Það var árið 1964. Hann er því meðal elstu tónlistarskóla landsins. Í sveitinni voru í upphafi eingöngu fullorðnir hljóðfæraleikarar, en með tímanum fóru að koma unglingar inn í sveitina og smám saman þróaðist sveitin í það að verða skólalúðrasveit Tónlistarskóla Stykkishólms. 
Í dag starfar lúðasveitin í nokkrum deildum;

Byrjendasveitin er kölluð „Litla Lúðró“. Í henni eru þeir sem eru komnir nokkuð af stað á hljóðfærin sín. Stjórnandi er Martin Markvoll.

Í "Milli Lúðró eru hljóðfæraleikarar sem eru komnir vel á veg í sínu hljóðfæranámi“. Í sveitinni eru í vetur 10 nemendur Tónlistarskólans. Stjórnandi er Martin Markvoll

Í „Stóru Lúðró“ eru þeir sem náð hafa lágmarksleikni á hljóðfærin. Þar eru nú, auk hefðbundinna lúðrasveitarhljóðfæra, píanó, rafgítar og rafbassi. Stjórnandi er Anastasia Kiakhidi.

Trommusveitin
Slagverksleikararnir æfa saman við ákveðin tækifæri í sérstakri trommusveit – eða „drumline“. Hana skipa snerlar, cymbalar, tritoms og bassatrommur. Stjórnandi er Hafþór S. Guðmundsson.

Víkingasveitin
Lengra komnir nemendur skólans æfa stundum saman í sérstakri sveit sem nefnd er eftir stofnanda lúðrasveitarinnar, Víkingi Jóhannssyni. Samsetning hennar er mismunandi eftir árum og oft er fullorðnum hljóðfæraleikurum bæjarins boðið að spila með. Stjórnandi er Martin Markvoll

Foreldrafélag:
Mikilvægur bakhjarl lúðrasveitarinnar er öflugt foreldrafélag. Foreldrafélagið vinnur við hlið stjórnenda að því að skipuleggja æfingabúðir, tónleika og tónleikaferðir. Ýmsar fjáraflanir eru haldnar til að safna í ferðasjóð og búningasjóð. Í stjórn nú eru: Edda Baldursdóttir, Solveig Guðmundsdóttir, Steinunn María Þórsdóttir og Þórný A. Baldursdóttir.


Allar deildir lúðrasveitarinnar æfa í sal tónlistarskólans. Tónleikar eru jafnan tvennir á ári - haust og vor - og eru yfirleitt haldnir í Stykkishólmskirkju sem er mjög gott tónleikahús.

Lúðrasveitin hélt upp á 70 ára afmæli sitt árið 2014 og var þá gefinn út sérstakur afmælisvefur.

Viðburðir


Lúðrasveit Stykkishólms, Stóra Lúðró - 70 ára afmælistónleikar 24. apríl 2014 í Stykkishólmskirkju
Stjórnandi: Martin Markvoll