Foreldrahandbók

Foreldrahandbók

- nokkur góð ráð til að hafa heimavið -

 
Foreldrar og tónlistarnám
Velkomin í hóp þeirra fjölmörgu landsmanna sem eiga börn í tónlistarskóla!
 
Eflaust er bakgrunnur ykkar ólíkur. Sum ykkar hafið sjálf verið í tónlistarskóla en önnur ekki. Í þessu litla riti er stiklað á stóru um hvað felst í því að vera í tónlistarskóla og hvert er hlutverk foreldra og heimila til að nemanda líði sem best og nái sem bestum árangri.
 
Margt fleira gagnlegt sem snertir tónlistarnámið má lesa hér á heimasíðu skólans. Einnig hvetjum við ykkur til að vera í góðu sambandi við kennara og skólastjóra ef spurningar vakna eða vanda ber að höndum.
 
Námsskipan
Í Tónlistarskóla Stykkishólms er kennt á öll hefðbundi hljóðfæri nema strokhljóðfæri og einnig er kenndur söngur.  Námskrá skólans má nálgast á heimasíðunni sem og fleiri upplýsingar um skólastarfið og sögu skólans.
 
Nemendur fá einka spilatíma/söngtíma og svo hóptíma eftir því sem náminu miðar og kennarar telja hæfilegt.  Blokkflautukennsla fer þó yfirleitt fram í hóptímum. Tónfræðagreinar eru einnig kenndar og nemendum er úthlutað tímum í þeim eftir því sem náminu miðar.  Reynt er að láta tónfræðaáfangana haldast í hendur við það hvernig miðar í hljóðfæra- eða söngnáminu.
 
Söngkennsla er miðuð við nemendur eldri en sextán ára, en í vetur er yngri nemendum skólans að koma einu sinni í viku í svokallaðan "opinn söngsal" og fá þjálfun í söng.
 
Söngnemendur fá undirleikstíma eftir því sem þeim fer fram við námið.  Nemendur á blásturshljóðfæri og slagverk (trommur) ganga til liðs við lúðrasveitina (litlu eða stóru eftir færni) og fá þar nauðsynlega viðbót við námið.  Þannig taka nemendur þátt í að skapa þann menningarbrag sem lúðrasveitin hefur sett á bæinn í áratugi.  
 
Foreldrar og tónlistarnám
Mikilvægt er að nemendur búi við jákvætt viðhorf til tónlistarnámsins, að foreldrar/forráðamenn sýni náminu áhuga og að þeir fylgist með framvindu þess.  Gott samband við foreldra er nauðsynlegt þar sem tónlistarnám byggist mikið á góðri heimavinnu. 
 
Hér eru nokkur atriði sem gott er að hafa í huga:
   ·         Nemendur þurfa að æfa sig á hverjum degi. Gott er að hafa í huga að „æfingin skapar meistarann“ og að betra er að æfa stutta stund í einu á hverjum degi en að æfa lengi og sjaldan.
   ·         Við hljóðfæraleikinn þarf að huga að líkamsstöðu:
             o      Sætið þarf að vera í réttri hæð.
             o      Nótur þurfa að vera í réttri hæð – nótnastatíf rétt stillt.
             o      Æskilegt er að gítarnemendur hafi stillanlegan fótskemil.
 
Ekki eru skipulögð sérstök foreldraviðtöl en foreldrar eru velkomnir að koma með börnum sínum í tíma.  Foreldrar og forráðamenn nemenda fylgi þeim að sjálfsögðu á tónfundi og tónleika. 
 
Hafi nemandi sjóngalla eða eigi við einhver veikindi eða önnur vandamál/erfiðleika að stríða sem áhrif geta haft á nám eða kennslu, er nauðsynlegt að skólastjóri og kennari séu upplýstir um slíkt svo réttilega sé á málum haldið. 
 
 Nokkrar skólareglur
1.     Nemendum ber að mæta stundvíslega í allar kennslustundir.
2.     Forföll / veikindi þarf að tilkynna með eins miklum fyrirvara og unnt er.  Þurfi kennari að fella niður tíma ber honum að bæta hann upp nema um veikindi sé að ræða og atvik í skólastarfinu, t.d. tónleika eða próf.
3.     Þegar nemendur koma fram á tónleikum er ætlast til að þeir séu snyrtilegir til fara.  Nemendur sýni hver öðrum tillitsemi með því að sitja hljóðir og hlusta.
4.     Séu nemendur beðnir um að flytja tónlist opinberlega er nauðsynlegt að það sé með vitund og samþykki viðkomandi kennara, sem fúslega mun aðstoða við undirbúning og val verkefna.
 
Hljóðfæri
Tónlistarskólinn á nokkur hljóðfæri til útleigu.  Þau eru fyrst og fremst ætluð fyrir þá sem eru að hefja nám og er miðað við að eftir 2 ára nám kaupi nemendur sér eigin hljóðfæri.  Stærri lúðrasveitarhljóðfæri eru þó leigð lengur ef óskað er.
 
Nemendur sem leigja hljóðfæri frá skólanum bera ábyrgð á þeim meðan þau eru í þeirra vörslu.  Verði hljóðfæri fyrir óhappi í vörslu nemanda ber honum að sjá um kostnað við viðgerð á því.  Mikilvægt er að fara vel með hljóðfærin.
 
Píanónemendur þurfa að hafa aðgang að hljóðfæri heimafyrir.  Í byrjun er hægt að notast við hljómborð með nótum í réttri stærð, en skólinn mælist til þess að eftir 2ja ára nám fái píanónemendur píanó til að æfa sig á.  Gott rafpíanó dugar nemendum vel í grunn- og miðnámi.  Nauðsynlegt er að píanóin séu jafnan rétt stillt.
 
 
Innritun og skólagjöld
Innritun nemenda fer fram í maí og byrjun júní.  Til að tryggja sér aðgang næsta skólaár skila eldri nemendur endurumsóknum á vorin.
 
Skólaárið skiptist í tvær annir (haust og vor) og greiðast skólagjöld í tvennu lagi eftir því.  Þegar nemandi hefur fengið inngöngu í tónlistarskólann er litið svo á að hann ætli að stunda námið til vors.  Greiðir hann skólagjöld samkvæmt því þó hann hætti námi fyrr.
 
Skólagjöld eru innheimt með útsendum greiðsluseðlum sem innheimtudeild Stykkishólmsbæjar sendir út.
 
Vilji nemendur einhverra hluta vegna breyta námshlutfallinu eða hætta námi eftir haustönn (um áramót) verða þeir að tilkynna skólastjóra það eigi síðar en 15. desember. 
 
 Námskröfur
Tónlistarskólinn gerir kröfur um ástundun (tímasókn og heimavinnu), en kröfur um námsárangur miðast við getu og hæfileika hvers og eins. 
 
Gott er að hafa í huga að „æfingin skapar meistarann“ og betra er að æfa stutta stund í einu á hverjum degi en að æfa lengi og sjaldan.
 
Tónleikar og tónfundir
Gert er ráð fyrir að flestir nemendur komi fram  á tónfundum og tónleikum u.þ.b. 4 sinnum á vetri, tvisvar sinnum á hvorri önn (haust og vor).  Að auki taka nemendur skólans þátt í ýmsumviðburðum í samráði við kennara sína og skólann og koma fram við ýmis önnur tækifæri, s.s. guðsþjónustur, aðventustundir o.fl.  
 
Þegar nemandi er beðinn að spila við ýmis tækifæri utan skólans, s.s. í afmælum og fjölskylduboðum er æskilegt að viðkomandi kennari sé með í ráðum (sbr. skólareglu nr. 4). Oft hafa komið upp klaufaleg tilvik þar sem reynt hefur verið að láta óskyld hljóðfæri spila saman án þess að það hafi verið undirbúið í skólanum, en það er ekki sama hvernig hljóðfæri eru valin saman.  Því er mælst til þess að kennarar fái að aðstoða nemendur við að velja og undirbúa viðfangsefni í þessum tilfellum.
 
Nemendur eru hvattir til að sækja almenna tónleika.  Mælst er til þess að þeir sæki a.m.k. tvenna tónleika utan skólans á hverjum vetri.
 
Skóladagatal ársins
Skipulag skólaársins er hægt að finna á skóladagatali á heimasíðu skólans. Þar geta nemendur og foreldrar séð hvernig skólinn hefur áætlað tíma fyrir tónleika og tónfundi, starfsdaga (sem jafnan fylgja áætlunum grunnskólans), prófdaga, skólafrí o.s.frv.