Starfsáætlun

Starfsáætlun skólaársins 2020-2021

Nýtt skólaár
Mörg spennandi verkefni bíða okkar á þessu skólaári. Nemendafjöldi er með mesta móti og gaman að skipuleggja enn eitt starfsárið. 

Nýtt skóladagatal er komið á heimasíðu skólans en þar má m.a. sjá tónfundi á haustönn og jólahátíðartónleika.

Þá má sjá starfsdaga, haustfrí og vorfrí.

Aðrir tónleikar og tónfundir verða auðvitað á sínum stað og lúðrasveitin heldur bæði haust- og vortónleika. Við munum kappkosta að heimsækja dvalarheimilið, sjúkrahúsið, leikskólann og grunnskólann og taka þátt í jólaundirbúningi með kvenfélaginu, kirkjunni og fleirum sem þess óska.

Kennara og starfsfólk má einnig finna á heimasíðunni.
  
Tónfræði
Tveir áfangar verða kenndir í vetur, en best fer á að áfangar í tónfræðagreinunum haldist í hendur við áfanga í hljóðfæranámi. 
Jóhanna Guðmundsdóttir sér um tónfræðakennsluna, en þessir áfangar verða kenndir í vetur:

  • 1. stig - kenndar verða bækurnar "Ópus 1" og "Tónheyrnarverkefni 1. stig"
  • 2.-3. stig - kenndar verða bækurnar "Ópus 3" og "Tónheyrnarverkefni 3. stig"

 

 Samspil og fleira

Fjölbreytt samspil verður í smáum og stórum hópum. Eftir færni geta nemendur tekið þátt í samspili og spreytt sig ýmsum stíltegundum. Lúðrasveitin mun að sjálfsögðu halda sínu striki og það eru þau Martin Markvoll og Anastasia Kiakhidi sem stjórna eins og í fyrra. Aðrir kennarar búa til samspilshópa með nemendum sínum þegar tilefni er til.

Nemendum í 10. bekk og eldri boðið að vera með í Víkingasveitinni. Fullorðnum hljóðfæraleikurum er boðið að vera með og gaman væri ef nokkrir úr þeim hópi bættust við. - Stjórnandi verður Martin Markvoll.

Í vetur bjóðum við upp á nýjung, en það er kennsla í upptökutækni og hljóðvinnslu. Nokkrir nemendur úr eldri bekkjum fá að spreyta sig í litlum hópum. Kennari verður Hafþór S. Guðmundsson.

 
Tónleikar
Hefðbundið tónleikahald verður með tónfundum einstakra kennara í lok október og svo blönduðum jólatónleikum í desember og vortónleikum í maí. Og ekki má gleyma tónleikunum með Maximús Músíkús í október.
 
„Degi tónlistarskólanna“ verður að þessu sinni fagnað laugardaginn 22. febrúar. Að sjálfsögðu er stefnt að þátttöku í NÓTUNNI, uppskeruhátíð tónlistarskólanna á landinu. Tíu ára afmæli Nótunnar verður fagnað með stórum tónleikadegi í Hörpu þar sem allir tónlistarskólar á landinu fá að senda eitt samspilsatriði eða hljómsveit og að sjálfsögðu stefnum við á að vera með.

Nánar verður sagt frá þessu öllu í fréttatilkynningum.
 
Próf
Þeir sem stefna á áfangapróf (grunnpróf, miðpróf, framhaldspróf) gera um það áætlun sem fyrst með kennara sínum og nánari dagsetning prófsins verður auglýst þegar nær dregur - líklegt að þau verði í lok apríl. Hefðbundin vorpróf verða í byrjun maí.