Saga skólans

Ágrip af sögu Tónlistarskóla Stykkishólms

Samantekt Ingibjargar Þorsteinsdóttur

 
Saga Tónlistarskóla Stykkishólms verður ekki sögð án þess að minnast á Lúðrasveit Stykkishólms, en hún með öðru undirbjó jarðveginn fyrir stofnun skólans.

Til eru sagnir um að hafi verið reynt að stofna lúðrasveit í Stykkishólmi um aldamótin 1900. Víst er að hér dvaldi um tíma Helgi Helgason tónskáld, stofnandi Lúðurþeytarafélagsins í Reykjavík, hann var einnig húsagerðarmaður og teiknaði hann gömlu kirkjuna í Stykkishólmi. Þetta var þó meira en 20 árum fyrir aldamótin og ekki ljóst hvort hann hafi átt aðild að þeirri hugmynd að stofna hér lúðrasveit eða hvort það hafi í raun verið seinna. Vitað er þó að árið 1914 kemur fram lúðrasveit í Stykkishólmi en hún hefur líklega verið stofnuð eitthvað fyrr. Þessi lúðrasveit varð skammlíf, einnig önnur sem stofnuð var á þriðja áratug aldarinnar.

Sönglíf var öflugt í Stykkishólmi, kirkjukór og góðir organistar, einkum er vert að minnast á Kristínu Sveinsdóttur Möller sem tók við organistastarfi 1897, 18 ára gömul og sinnti því með "nokkrum úrtökum" fram yfir 1920. Hún var einnig kennari við barnaskólann í Stykkishólmi og ól þar upp marga góða söngmenn sem staðurinn naut góðs af síðan.

Á mörgum heimilum í Stykkishólmi voru til hljóðfæri, harmonium, gítar, harmonika og píanó. Sú sögn er til að hér hafi um tíma verið hinn frægi konungsflygill, en ekki er það staðfest svo vitað sé.

Veruleg hreyfing kemst á lúðraþyt bæjarbúa þegar Eskfirðingar tveir setjast hér að, fyrst Árni Helgason, og skömmu síðar vinur hans, Víkingur Jóhannsson. Gengust þeir fyrir því að Lúðrasveit Stykkishólms var stofnuð árið 1944. Fé var safnað til hljóðfærakaupa og nótur fengnar til afritunar frá Eskifirði, en þar var kraftmikil lúðrasveit. Víkingur tók að sér stjórn sveitarinnar og kenndi félögum á öll hljóðfærin. Tók hann þá heim til sín að loknum vinnudegi og kenndi þeim oft fram á kvöld, auk þess að stjórna æfingunum. Lúðrasveit Stykkishólms kom fyrst fram opinberlega 1. desember 1944 á kvenfélagsskemmtun.

Víkingur var einnig organisti í Stykkishómskirkju og Helgafellskirkju og var það eina launaða tónlistarstarfið sem hann sinnti þar til tónlistarskóli var stofnaður í Stykkishólmi.

Upp úr 1960 hættu margir í lúðrasveitinni og starfsemin fór í nokkurn öldudal, kom þá til tals að stofna tónlistarskóla til að þjálfa upp nýja félaga í lúðrasveitina. Þann 9. apríl árið 1964 var stofnað tónlistarfélag "sem hefði forgöngu að reka tónlistarskóla" í Stykkishólmi undir stjórn 12 manna tónlistarráðs. Þriðjungur rekstrarfjár yrði frá ríkinu, þriðjungur frá hreppnum og þriðjungs yrði aflað með félagsgjöldum í tónlistarfélaginu og kennslugjöldum, en árið áður samþykkti Alþingi að ríkið veitti slíka styrki á móti öðru eins frá sveitarfélögunum. Sama vor fengust þessir styrkir frá ríki og hrepp og gat Víkingur Jóhannsson þá sagt starfi sínu lausu á sýsluskrifstofunni og snúið sér að stjórn Tónlistarskóla Stykkishólms og kennslu. Um sumarið og haustið kynnti hann sér rekstur skóla í Reykjavík og Hafnarfirði, sótti fund tónlistarskólastjóra. Safnað var fé og nýjum félögum í tónlistarfélagið og "flygel pantað frá Danmörku" (úr fundargerð tónlistarráðs 25. sept 1964). Fyrsta veturinn er kennt á orgel, píanó og blásturshljóðfæri og kennir Víkingur á öll hljóðfærin. Í fundargerð 25. sept 1964 er eftirfarandi bókun:
"fyrir fundinum lá að ákveða skólagjöld fyrir næsta skólaár og var ákveðið sem hér segir
1.Fyrir kennslu á orgel, píanó og fiðlu
a) Fyrir heilan nemanda kr 400 á mánuði
b) Fyrir hálfan nemanda kr 250 á mánuði (tveir saman)
Ef 2 nemendur eða fleiri eru frá sama heimili lækkar gjaldið um 20%.
Fyrir kennslu á blásturshljóðfæri kr 100 á mánuði fyrir nemanda."

Skólinn var í Hljómskálanum, húsi Lúðrasveitar Stykkishólms, og fyrstu tvö árin var Víkingur eini kennarinn við skólann, en frá 1966 er einn kennari með honum til ársins 1970. Þaðan í frá er ekki annað að sjá að Víkingur hafi aftur verið eini kennarinn allt til haustsins 1975 þegar Hafsteinn Sigurðsson kemur að skólanum. Að undanskildum þremur námsárum í Noregi hefur Hafsteinn verið einn af burðarásum skólastarfsins í Tónlistarskóla Stykkishólms til þessa dags. Þegar Hafsteinn kemur að skólanum er Víkingur farinn að heilsu og lét hann af störfum árið 1977. Hann starfaði eftir það á Amtsbókasafninu í Stykkishólmi. Víkingur lést árið 1985.

Á fyrstu árum tónlistarfélagsins stóð það fyrir ýmsum tónlistarviðburðum í bænum, á vegum þess komu m.a. Gísli Magnússon, Rögnvaldur Sigurjónsson, Halldór Haraldsson og Stefán Edelstein píanóleikarar, einnig blásarakvintett, svo dæmi séu nefnd. Einnig beitti félagið sér fyrir að keypt yrðu "hljómplötutæki" ásamt hljómplötum og voru tónlistarkvöld haldin til að kynna meistaraverk tónbókmenntanna.

Árið 1977 tók við starfi skólastjóra norskur maður, Arne Björhei.
Í fundargerð 26. okt. árið 1978 er þetta bókað:
"Arne Björhei skólastjóri kennir á blásturshljóðfæri. Hann kennir í Hljómskála og Lionshúsi.
Hafsteinn Sigurðsson kennir á blokkflautu og rafmagnsorgel. Hann kennir í Samkomuhúsi.
Sigríður Kolbeins kennir á píanó og fer kennslan fram í Hljómskála á flygli Tónlistarfélagsins.
Sigurborg Sigurðardóttir kennir á píanó í kennslustofu í húsnæði heimavistar barnaskólans og er kennt á píanói barnaskólans."
Hafsteinn kenndi einnig á klarinett, harmoniku, gítar og melodiku.

Af þessu má sjá að kennt hefur verið á fjórum stöðum í bænum þetta árið. Næstu árin flyst kennslan nokkuð til og frá, m.a. var kennt á elliheimilinu, Frúarhúsinu og í Norska húsinu. Arne var hér í tvö ár, þá hélt hann aftur til Noregs. Ekki fékkst neinn til að taka við skólanum af honum og kom hann því aftur og var til áramóta ´80 - ´81. Arne hefur síðan starfað við Tónlistarháskólann í Tromsö í Noregi, hann hefur verið í Arctic Quintet, málmblásarakvintett sem hefur haldið tónleika víða um heiminn auk þess að stunda rannsóknir á þjóðlegri tónlist, m.a. í Tíbet.

Árið 1981 tók Daði Þór Einarsson við af Arne Björhei. Fljótlega eftir það flutti skólinn í "kálfinn", hús, sem stendur við gamla barnaskólann í Stykkishólmi og stórbatnaði þá aðstaða til kennslunnar. Má þá segja að skólastarfið hafi að mestu færst í það horf sem það er nú. Nokkrum árum seinna, um 1991 fékk skólinn aðstöðu í gamla barnaskólanum. Þá voru innréttaðar 3 hljóðfærakennslustofur á íþróttahúsloftinu, tvær þeirra úr stórri bekkjarkennslustofu og ein í gamla skólabókabókasafninu og hefur tónlistarkennslan verið þar og í gamla íþróttahúsinu til þessa dags.

Kennurum fjölgaði smám saman við skólann, þessi árin voru þeir oftast fjórir, en síðan 1994 hafa starfað sex kennarar að jafnaði og nemendur verið um 120.

Nýr kraftur færðist í starfsemi lúðrasveitarinnar þegar Arne kom og síðar Daði Þór. Farið var í margar tónleikaferðir bæði innanlands og utan, m.a. til Vestmannaeyja, á Vestfirði, til Norðurlandanna og Austur-Þýskalands.

Ný kennslugrein bættist við í Tónlistarskóla Stykkishólms upp úr 1994, en það er söngur og er nú starfandi öflug söngdeild við skólann.

Árið 1990 var vígð ný kirkja í Stykkishólmi, stórt og veglegt hús sem er rómað fyrir góðan hljómburð. Í kirkjunni er góður konsertflygill og hefur hún því verið mjög eftirsótt til tónleika. Auk þess sem flestir skólatónleikar voru haldnir í kirkjunni um árabil hafa margir frábærir tónlistarmenn komið í heimsókn og glatt bæjarbúa og ferðamenn með list sinni. Frá árinu 1996 hefur verið haldin "Sumartónleikaröð í Stykkishólmskirkju" og hafa kennarar og aðrir tónlistarmenn í Stykkishólmi komið mikið við sögu þeirra tónleika, bæði við tónlistarflutning og skipulagningu.

Í ágripi af sögu Tónlistarskóla Stykkishólms er nauðsynlegt að geta um þann mikla þátt sem velunnarar skólans hafa átt í starfinu og skal þar fyrstan telja Jósep Blöndal lækni við St Fransiskusarsjúkrahúsið í Stykkishólmi. Hann hefur átt sæti í skólanefnd frá árinu 1994 og hann og fleiri úr fjölskyldu hans hafa verið nemendur skólans um árabil. Jósep stofnaði sjóð til hljóðfærakaupa árið 1996 og hefur á hverju ári gengist fyrir tónleikum til fjáröflunar í sjóðinn þar sem fjölskylda hans og vinir, auk kennara skólans hafa komið fram. Ómetanlegur er þáttur Jóns Svans Péturssonar málara og tónlistarmanns, Lárusar Péturssonar gítarkennara við skólann og Elísu Vilbergsdóttur söngkonu, fyrrverandi nemanda skólans, í þessum fjölsóttu tónleikum. Þessi sjóður gerði skólanum kleift að kaupa flygil í sal skólans árið 1999 og er nú unnt að halda flesta nemendatónleika þar.

Daði Þór var skólastjóri í 19 ár, frá 1981 - 2000, að undanskildu árinu 1998 - 1999. Það ár var Ingibjörg Þorsteinsdóttir skólastjóri í afleysingum. Daði lét af störfum árið 2000 og hélt þá til starfa í Danmörku. Ingibjörg tók þá aftur við stöðu skólastjóra.

Á þeim nærri 37 árum sem Tónlistarskóli Stykkishólms hefur starfað hafa 30 tónlistarmenn kennt við skólann. Auk skólastjóranna Víkings og Daða Þórs hafa eftirtaldir kennarar verið 3 ár eða lengur: Hafsteinn Sigurðsson og Lárus Pétursson, sem hafa kennt lengst allra, Lana Rae Betts, vesturíslensk stúlka kenndi hér í 4 ár og maður hennar David Enns í 3 ár. Ingibjörg Þorsteinsdóttir hefur starfað við skólann frá 1994, og hjónin Hólmgeir Sturla Þórsteinsson og Sigrún Jónsdóttir síðan árið 1996.

Stykkishólmsbær stendur að tónlistarskólanum með miklum myndarbrag, fjárframlög til hans eru hlutfallslega með því hæsta sem gerist í þessum landsfjórðungi. Um 10% bæjarbúa stunda nám við skólann að jafnaði. Tónlistarskólinn auðgar hversdagslífið og lyftir hátíðarstundum og mun vonandi setja svip á bæinn um ókomin ár.


----------------
Heimildir: grein eftir Jóhann Rafnsson send Jóni Þórarinssyni árið 1991,
Afmælisrit 1989 - Lúðrasveit Stykkishólms 45 ára, Tónlistarskóli Stykkishólms 25 ára Fundargerðarbók Tónlistarskóla Stykkishólms frá stofnun