Jóhanna Guðmundsdóttir kveður Tónlistarskóla Stykkishólms

Síðastliðinn fimmtudag, þann 20. maí, fóru fram skólaslit Tónlistarskóla Stykkishólms í Stykkishólmskirkju. Venju samkvæmt var tónlist í fyrirrúmi og léku nemendur skólans vel valin verk. 

Á meðal gesta var Jóhanna Guðmundsdóttir, skólastjóri Tónlistarskólans, sem ákveðið hefur að láta af störfum, en Jóhanna kom fyrst til starfa við Tónlistarskólann árið 1977 og kenndi við hann, með hléum til ársins 2005 þegar hún tók við sem skólastjóri tónlistaskólans frá 1. ágúst 2005. Var Jóhönnu veittur þakkarvottur á skólaslitunum fyrir samstarfið 

Jóhönnu var þakkað fyrir gott samstarf af kennurum skólans ásamt því að Jakob Björgvin Jakobsson bæjarstjóri flutti ávarp á þessum tímamótum. Í ávarpi bæjarstjóra kom m.a. fram að Jóhanna væri í raun síðust til að starfa sem skólastjóri Tónlistaskóla Stykkishólms, þar starfið afmarkast einungis við tónlistaskólann, en í kjölfar þess að Jóhanna ákvað að láta af störfum samþykkti bæjarstjórn Stykkishólmsbæjar í vor skipulagsbreytingar í skólastarfi sem fól í sér samrekstur tónlistaskóla og grunnskóla frá og með næsta skólaári. Mun því Berglind Axelsdóttir, skólastjóri Grunnskólans í Stykkishólmi, stýra tónlistarskólanum samhliða grunnskólanum frá og með 1. ágúst næstkomandi. Jafnframt var nýlega gengið frá ráðningu Kristjóns Daðasonar, sem mun taka við nýrri stöðu deildarstjóra við tónlistaskólann.

Í ávarpi bæjarstjóra kom meðal annars fram: 
 
?Jóhanna, sem fæddist og ólst upp á Selfossi, flutti upphaflega á Snæfellsnes til að sinna tónlistarkennslu í Ólafsvík, þetta var í kringum 1975. En eins og við þekkjum öll heillar Hólmurinn og dregur að sér gott fólk. Jóhanna varð fegurðinni fljótt að bráð og fluttist til Stykkishólms um tveimur árum seinna. En hvort það var bæjarfegurðin eða fegurð bakarans sem dró Jóhönnu til okkar, það er í raun erfitt að segja til um. Eflaust hefur hún verið bæði undir áhrifum bakarans og samfélagsins hér þegar hún tók ákvörðun um flutninginn. 
 
Ég vil nefna það sérstaklega hér hversu gríðarlega dýrmætt það er fyrir náin samfélög, eins og Stykkishólmur er, að fá vítamínsprautu eins og Jóhönnu til að vinna í þágu samfélagsins líkt og hún hefur ötullega gert. Augljós slagkraftur hennar í tónlistar- og menningarlífi Hólmara hefur væntanlega ekki farið framhjá neinum. Hún hefur komið víða við og snert við mörgum. 
 
Margir muna eftir henni við orgelið hér í Stykkishólmskirkju, þar sem hún var organisti og kórstjóri. Aðrir muna eftir henni úr kennslu við Grunnskólann þar sem hún kenndi tónmennt. Enn aðrir tengja hana jafnvel við fallegan píanóleik undir söng Bjarna Lárentsínussonar og Njáls Þorgeirssonar á plötunni ?Söngdúettar? sem kom út 1985 og leynist í gömlum plötusöfnum víða hér í bæ.  
En flest tengjum við Jóhönnu í dag við Tónlistarskóla okkar Hólmara. Þar hefur hún unnið gífurlega gott og mikilvægt starf í gegnum tíðina og búa margir vel að því í dag sem lærðu hjá Jóhönnu eða hjá skólanum undir hennar stjórn.?
Jóhönnu var að lokum veittur þakklætisvottur að gjöf fyrir hennar mikilvægu störf í þágu sveitarfélagsins og fyrir hennar metnað fyrir því að skapa nemendum og starfsfólki tónlistaskólans faglega umgjörð og þakkað ómetanlegt framlag í tónlistar- og menningarmálum í Stykkishólmi um áratugaskeið.

Jóhanna ávarpaði samkomuna og þakkaði fyrir sinn tíma í Stykkishólmi. Þakkaði Jóhanna samstarfsfólki fyrir gott og farsælt samstarf og færði skólanum heillaóskir. Að lokum fór Jóhanna með ljóðið ?Fræ? sem hún sagðist hafa valið árið 2019 til þess að fara með á skólaslitunum 2020, en þar sem henni hafi ekki tekist að flytja ljóðið í fyrra þótti henni við hæfi að fara með það við þessi tímamót. Ljóðið Fræ eftir Hörpu Rún Kristjánsdóttur er úr ljóðabókinni Edda sem kom út árið 2019 og hlaut bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar.

Jóhanna kveðst hafa átt sín bestu ár í Stykkishólmi og því fylgi ákveðinn söknuður að yfirgefa bæinn en þótti jafnframt ákaflega gaman að koma í heimsókn á fimmtudaginn var í fallegu veðri.